22 tískuráð sem eiga alltaf við

Dagsetning
Hér eru nokkur skemmtileg ráð sem við fengum send til okkar og máttum við til með að deila þeim með ykkur:
 1. Bert hold á ekki alltaf við. Það getur vissulega verið fallegt en almenna reglan er – berir handleggir og leggirnir klæddir og öfugt.
 2. Fylgihlutir geta breytt öllu. Þú þarft ekki alltaf nýjan kjól (æ jú, samt....) Oft er nóg að fara í nýja skó, vera með litríkt veski eða lekkeran klút til að poppa upp eða breyta klæðnaði svo um munar.
 3. Galdra blandan í góðum buxum er 95% bómull og 5% lycra! Þá halda þær sér vel, engin hné eða rassapokar.
 4. Vertu klædd til að versla. Ekki mæta í gallabuxum og strigaskóm, íþróttahaldara og hvítum sportsokkum að máta gellukjól. Vertu í þeim brjóstahaldara sem þú hyggst nota við kjólinn, sokkabuxum, aðhaldsfatnaði eða hvað það nú er sem þú notar.
 5. Þegar þú mátar gallabuxur er þér óhætt að kaupa númeri minna en þú heldur. Gallabuxur gefa nefnilega um 1 cm eftir, stundum meira.
 6. Eins leiðinleg og 6 mánaða reglan er þá er hún rétt.... Ok að teygja þetta upp í ár en ég held við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Líkurnar eru hverfandi á að þú notir eitthvað sem að hefur legið eða hangið í skápnum í meira en 6 mánuði.
 7. Föt þurfa að anda. Þau þurfa pláss. Þeim líður ekki vel þegar þau eru eins og Tokyobúar í lest á háannatíma. Leyfðu þeim að njóta sín og hugsaðu vel um þau. Þá endast þau betur og eru fallegri.
 8. Opnaðu hugann. Alltaf máta eina flík sem þú gengur fram hjá og hugsar:“Töff – en ekki ég!“ Kemur manni oft á óvart hvað klæðir mann nefnilega. Rétt eins og að alltaf verð ég jafn hissa þegar ég kemst að því að maxi kjóll lætur mig líta út eins og hobbita. Eins flottur og hann nú er á þessum hávöxnu.
 9. Alltaf eiga eitt, fallegt og snyrtilegt par af svörtum hælum. Þeir ganga við allt.
 10. Kvartleggings ganga aldrei.
 11. Ekki fara út í leggings áður en þú hefur tékkað á þér rassinn í spegli. Og leggings eru jú leggings, ekki buxur.
 12. Vertu í fötum sem passa. Of lítil föt og of stór föt ganga aldrei.
 13. Vertu þú. Þegar þú hefur fundið þinn stíl er næstum víst að hann klæðir þig.
 14. Sparaðu ilmvatnið. Uppáhalds lyktin þín getur vakið velgju hjá öðrum. Svo einfalt er það.
 15. Ekki vera hrædd við liti. Litir eru fallegir.
 16. Vertu viss um að þú getir gengið á hælunum. Ef þú ert eins og nýfæddur kálfur þá ertu ekki að ráða við þá.
 17. Límrúlla. Besti vinur þinn. Dýraeigendur vita hvað ég meina. En kusk er aldrei töff á fötum. Rúllaðu létt yfir þig áður en haldið er út og allt verður miklu fínna.
 18. Vínflöskur eru dásamlegar. Skelltu þeim í stígvélin þegar þú ert ekki að nota þau (eða drekka vínið) og stígvélin haldast flott!
 19. Ef þú ert í vafa þá er betra að vera of fínn en of .... Æ þú veist hvað ég meina. Glatað að mæta í hettupeysunni og jussubuxunum og allir aðrir lekkerir. Hettupeysur og jussubuxur eru samt eiginlega aldrei í lagi.
 20. Heimadress. Þau þurfa ekki að vera ljót. Það þarf ekki að vera blettur á bolnum og gat í klofinu á buxunum. Oft er hægt að fá smart kafkana í notuðu búðunum og þægileg föt án þess að þau séu ljót eða ónýt.
 21. Hvítar nærbuxur sjást bara víst í gegnum hvíta kjólinn. Lykillinn hér er að kaupa húðlitaðar naríur og haldara.
 22. Opnir skór, passaðu að vera með hreinar og snyrtilegar tær. Það er ekki lekkert að sjá langar táneglur og líkþorn gægjast út úr gull sandölunum.

Hæ þú!

Skráðu þig á póstlistan okkar!

Liquid error: Could not find asset snippets/bold-currency-converter.liquid