Þurrburstun gerir kraftaverk

Dagsetning

 

Margir hafa eflaust heyrt talað um þurrburstun húðarinnar og vætnanlega hefur fólk mismikla trú á áhrifum þess.  Sjálf er ég til dæmis búin að eiga svínahárabursta með skafti hangandi inni á baði í langan tíma og notað hann endrum og eins.  Loks ákvað ég hins vegar að prófa að bæta þurrburstun inn í morgunverkin mín, enda tekur það ekki nema tvær til tíu mínútur, eftir því hvað ég hef mikinn tíma. Rétt eins og svo margir þá hafði ég efasemdir um að þurr bursti úr svínahárum hefði nokkur áhrif á húðina en hugsaði þó með mér að fyrst þetta er predikað svo víða sem raun ber vitni þá væri það alveg þess virði að reyna.

 

Nú hef ég gert þetta nánast daglega í þrjá mánuði og bæði finn og sé muninn. Húðin er augljóslega stinnari og mýkri, ég er mun ferskari yfir daginn og vakna mjög sjaldan með bólgið andlit eða bjúg á líkamanum sem maður verður óneitanlega viðkvæmari fyrir með árunum. Þannig að núna er það orðið þannig að ég finn mikinn mun á mér ef ég sleppi þurrburstuninni. Hún beinlínis gefur mér orku. Þess vegna er hún nánast orðin mikilvægari partur af því að fara á fætur heldur en kaffibollinn, sem ég sleppi þó sjaldnast.

 

Aðferðin við þurrburstun er þessi:

Finndu þér góðan bursta úr náttúrulegum hárum, svo sem svínahárum. Burstinn á að vera dálítið stífur en þó ekki þannig að hann rispi (þú nærð til dæmis ekkert betri árangri þó þú notir vírbursta). Það er gott að hafa skaft á burstanum til að ná að bursta bakið líka.

 

Burstaðu líkamann fyrir morgunsturtuna og alltaf í átt að hjartanu því það hefur bestu áhrifin á sogæðakerfið. Best er að byrja á fótum, jafnvel iljum, og bursta upp líkamann. Ágætt er að leggja sérstaka áherslu á þá staði sem mest þurfa á örvun að halda, svo sem læri, rass, maga og upphandleggi, en slepptu því þó að bursta andlitið. Bringan er burstuð niður á við, enda er hjartað neðan við bringuna. Það er fínt ef daufur roði er í húðinni eftir burstunina en varist þó að skilja eftir rispur. Burstaðu því nokkuð þétt án þess þó að skrúbba harkalega.

Eftir þurrburstunina fer maður svo bara í sturtu, eins og vanalega, en í lok sturtunnar stillirðu á vel kalda bunu og lætur ískalt vatnið renna niður eftir mænunni áður en þú skrúfar fyrir.

 

Gjarnan er talað um sjö atriði sem eru ávinningur þurrburstunar:

 

  1. Örvun sogæðakerfisins

Sogæðakerfi líkamans er nokkurs konar hreinsunarkerfi sem er mikilvægt að hafa í lagi. Ef það virkar ekki á fullnægjandi hátt er hætta á að það safnist fyrir úrgangsefni í líkamanum og það getur leitt til veikinda. Einnig sér sogæðakerfið til þess að ekki safnist fyrir bjúgur í líkamanum.

 

  1. Hreinsar dauðar húðfrumur

Þurrburstunin burstar í burtu dauðar húðfrumur og hreinsar stíflaðar svitaholur. Þannig nær húðin aukinni öndun og lítur því betur út í kjölfarið.

 

  1. Aukið blóðflæði um húðina

Við þurrburstunina eykst blóðflæðið um húðina sem hvetur efnaskiptin svo hún endurnýjar sig hraðar.

 

  1. Appelsínuhúð minnkar

Með tímanum vinnur þurrburstunin á appelsínuhúð með því að mýkja harða fitu undir húðinni svo hún dreifist jafnar yfir þau svæði sem safna appelsínuhúð. Fyrir vikið má fljótlega sjá appelsínuhúð minnka með reglulegri þurrburstun. Þessa sögu segja margar konur sem hafa verið að kljást við appelsínuhúð og segja þessa leið virka margfalt betur en nokkur krem eða rándýrar meðferðir á snyrtistofum.

 

  1. Minnkar stress

Sumir tala um að þurrburstun virki eins og hugleiðsla (sérstaklega ef hún er framkvæmd á hljóðlátum stað í næði). Burstunin getur minnkað spennu í vöðvum, róað hugann og minnkað stress. Jafnvel hefur þurrburstun verið líkt við létt heilnudd.

 

  1. Betri melting og nýrnastarfsemi

Þurrburstunin hefur ekki eingöngu áhrif á húðina heldur nær hún að hafa áhrif á meltingarlíffæri. Þar hefur til dæmis verið nefnt að læknar noti þurrburstun til að ná niður bjúg. Þurrburstunin virkar sem nudd á eitla líkamans og hjálpar líkamanum að losa sig við uppsafnaðan vökva og eiturefni.

 

  1. Þurrburstun er hressandi

Margir verða nánast háðir þurrurstun (á jákvæðan hátt) af því hún beinlínis veitir vellíðan. Auk þess að auka ljóma húðarinnar og gera hana stinnari þá kannast „þurrburstarar” við að vera extra hressir eftir burstunina.

  

Ég get algjörlega mælt með þurrburstun daglega og jafnvel tvisvar á dag. Núna veit ég um hvað málið snýst og get varla hugsað mér að fara á fætur án þess að grípa í þurrburstann, að minnsta kosti í smá stund.

 

Nú er bara að kíkja í næsta apótek eða heilsubúð og fjárfesta í góðum bursta. Byrjaðu strax í dag. Þú munt ekki sjá eftir því. Munurinn kemur fljótt í ljós.

 

Kærleikskveðja!

  

0 comments

Leave a comment

Hæ þú!

Skráðu þig á póstlistan okkar!

Liquid error: Could not find asset snippets/bold-currency-converter.liquid